Dugir handa: 4
Hráefni:
7-800 g steinbítsflök , roð- og beinhreinsuð (eða annar fiskur)
2 msk olía
1-2 hvítlauksgeirar , saxaðir smátt
5 cm engiferbiti , rifinn eða saxaður smátt
150 ml vatn
3 msk hvítvín , þurrt eða sjerrí (eða meira vatn)
3 msk sojasósa
pipar , nýmalaður
salt ef þarf
2-3 msk graslaukur , saxaður
Leiðbeiningar:
Fiskurinn skorinn í nokkuð stóra bita. Olían hituð í stórri, þykkbotna pönnu og hvítlaukurinn og engiferinn settur út í og látinn krauma við hægan hita í nokkrar mínútur. Þegar hann er rétt að byrja að taka lit er vatninu hellt á pönnuna ásamt víninu, sé það notað, og sojasósunni. Hitinn hækkaður og látið sjóða niður í 3-4 mínútur. Smakkað til með pipar og e.t.v. salti, en sojasósan er svo sölt að þess ætti varla að vera þörf. Fiskurinn settur á pönnuna, lok sett á hana eða álpappír lagður yfir, hitinn hafður fremur vægur, og látið malla í um 5 mínútur. Graslauk stráð yfir og borið fram strax, gjarna með hrísgrjónum og sítrónubátum.